Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag að byggingavöruverslunin BYKO hafi framið alvarleg brot á samkeppnislögum að því er segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins um málið á vef stofnunarinnar . Þar segir jafnframt að því hafi dómurinn hækkað álagða sekt á fyrirtækið í 400 milljónir króna, en upphafleg sekt stofnunarinnar sem lögð var á í maí 2015 nam 650 milljónir króna.

Sú sekt lækkaði síðar í gegnum áfrýjunarferlið sem tekið hefur rúm 5 ár fyrst niður í 65 milljónir, hækkaði svo á ný í 400 milljónir, lækkaði aftur í 325 og hækkar loks á ný í 400 milljónir. Málið á þó sér mun lengri aðdraganda enda fjallar Viðskiptablaðið fyrst um það í mars árið 2011 eftir húsleit lögreglunnar í verslunum Byko og Húsasmiðjunnar.

Í dómsorði Hæstaréttar nú segir að reglubundnum og tíðum samskiptum Byko og Húsasmiðjunnar hafi fyrirtækin aflað upplýsingum um verð sem hafi verið miðlað áfram til stjórnenda sem hafi fjallað um þær á fundum. Auk þess hafi verið skipst á upplýsingum um afkomu og rekstur og hugmyndum um breytta verðstefnu.

„Auk þess var um ólögmætt samráð gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. að ræða í tilraun þeirra til að fá Múrbúðina ehf. til þess að taka þátt í verðsamráðinu,“ tekur SKE meðal annars upp úr dómsorði Hæstaréttar.

„Loks liggur fyrir endurrit símtals sem framkvæmdastjóri fagsölusviðs gagnáfrýjandans Byko ehf. átti við starfsmann Húsasmiðjunnar ehf. 28. febrúar 2011 þar sem hvatt var til víðtæks verðsamráðs.“

Eftir kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála komst nefndin að þeirri niðurstöðu að brot Byko væru ekki jafnumfangsmikil sem og hún hún hafnaði því að ákvæði EES samningsins hefðu verið brotin. Hins vegar staðfesti nefndin að Byko hefði tekið þátt í ólöglegu verðsamráði svo sektin varlækkuð niður í 65 milljónir króna.

Samkeppniseftirlitið nýtti sér í kjölfarið heimild til að höfða mál fyrir dómstólum og dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur þann 1. júní 2018 að brotin hefðu verið alvarleg, sem og að ákvæði EES samningsins hefðu verið brotin, og hækkuðu sektina í 400 milljónir króna á ný.

Byko og móðurfélag þess Norvik skutu málinu þvínæst til Landsréttar sem komst að sömu niðurstöðu og áfrýjunarnefndin þó sektin væri einungis lækkuð í 325 milljónir króna. Samkeppniseftirlitið fékk síðan heimild til að áfrýja til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur, þó með lægri sektargreiðslu eða 400 milljónum eins og áður segir, og þar með er málinu lokið ríflega 5 árum eftir fyrstu ákvörðun stofnunarinnar.

Hér má lesa frekari fréttir og umfjallanir um verðsamráðsmál byggingavöruverslana: