*

laugardagur, 8. maí 2021
Innlent 1. september 2020 15:40

Birta hættir að lána óverðtryggt

Lífeyrissjóður sem lækkaði óverðtryggða breytilega vexti á fasteignalánum niður í 2,1% í sumar lánar ekki meira á þeim út árið.

Ritstjórn
Ólafur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.
Aðsend mynd

Fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins, Birta lífeyrissjóður, hefur ákveðið að taka ekki við fleiri nýjum umsóknum um óverðtryggð sjóðfélagalán „að svo stöddu“ að því er sjóðurinn hefur tilkynnt á vef sínum.

Vænta megi að óverðtryggð lán verði í boði á ný hjá sjóðnum í kringum áramót þegar lánsframboð sjóðsins hafi verið endurskoðað. Sjóðurinn bendir þó á að hann bjóði „ennþá upp á hagstæð verðtryggð lán til sinna sjóðfélaga“.

Í tilkynningu sjóðsins kemur fram að þær lánsumsóknir sem honum hafi þegar borist vegna óverðtryggðra lána verði afgreiddar á næstu vikum og mánuðum. Birta hefur lokað áður fyrir lánveitingar en í sumar var lokað fyrir endurfjármögnun eldri lána í meira en tíu vikur hjá sjóðnum.

Sögðu lágu vextina ekki áhyggjuefni

Í lok apríl á þessu ári hafði Viðskiptablaðið eftir Ólafi Sigurðssyni framkvæmdastjóra sjóðsins að 2,85% vextir sjóðsins á óverðtryggðu lánin þá væri ekki áhyggjuefni, en í sumar lækkuðu vextir lánanna niður í 2,1%.

Í lok júlí 2018 komu fram fréttir um aukinn áhuga lántakenda á óverðtryggðum lánum, samhliða lækkandi vöxtum, en þá hafði hlutfall slíkra lána aukist úr 7,5% lána Almenna lífeyrissjóðsins í maí 2015 upp í 30% í maí 2017.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um aukinn áhuga á óverðtryggðu lánunum haustið 2017 og kom þar meðal annar fram að lífeyrissjóðirnir hafi tekið við hlutverki Íbúðalánasjóðs í útlánum til íbúðarkaupa beint.

Tveimur árum seinna var hlutur óverðtryggðra fasteignalána kominn yfir þrjá fjórðu allra nýrra lána, samhliða því að Birta og aðrir lífeyrissjóðir lækkuðu breytilega vexti óverðtryggðra sjóðfélagalána.

Hér má sjá frekari fréttir um Birtu og óverðtryggð útlán lífeyrissjóða: