Umboðsmaður Alþingis hefur veitt Seðlabankanum frest fram til 2. ágúst, það er morgundagsins, til að upplýsa sig um stöðuna á úrvinnslu erindis frá Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra Samherja að því er Fréttablaðið greinir frá.

Var erindi embættis umboðsmanns sent bankanum 19. júlí síðastliðinn, en Þorsteinn Már hafði snúið sér til þess nokkrum dögum fyrr til að kvarta undan óhóflegri töf á afgreiðslu erindis hans til bankans.

Upphaflega hafði hann sent erindið þann 20. febrúar síðastliðinn þar sem hann fór fram á að bankinn hefði frumkvæði að því að bjóðast til að bæta honum kostnað og miska sem málarekstur bankans hefði haft í för með sér fyrir hann.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um snýst málið um rannsókn gjaldeyriseftirlitsins, og húsleit, á meintum brotum hans og Samherja á gjaldeyrishöftunum. Lauk þeim málum með ógildingu stjórnvaldsekta sem Seðlabankinn hafði lagt á, fyrir dómstólum.

Ekkert hefur bólað á svörum frá Seðlabankanum þrátt fyrir að Þorsteinn hafi ítrekað erindi sitt 17. apríl síðastliðinn, þó tveimur dögum síðar hafi starfsmaður svarað Þosteini að unnið væri að svörum. Ítrekaði hann í þriðja sinn 23. maí síðastliðinn.

Ásgeir Jónsson mun taka við embætti bankastjóra Seðlabanka Íslands af Má Guðmundssyni, sem verið hefur yfir bankanum allan tíman sem málið gagnvart Þorsteini hefur verið rekið, þann 20. ágúst næstkomandi. Það má því segja að bankinn hafi þrjár vikur til að ljúka málinu með Má í brúnni líka.

Hér má lesa fleiri fréttir um deilur Samherja og Seðlabankans: