Stjórn Skeljungs hf. hefur ráðið Árna Pétur Jónsson, sem forstjóra félagsins, og mun ráðningin taka gildi í dag.  Árni Pétur lauk Cand Oecon frá Háskóla Íslands 1991.  Árni Pétur hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, stórra sem smárra.

Hann hefur unnið með fyrirtækjum sem eru í alþjóðaviðskiptum, s.s. Vodafone, Debenhams, Zara, Top Shop og Iceland. Þá var Árni forstjóri Teymis hf þegar það var skráð í Kauphöll Íslands auk þess sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Olís og Högum.

Hin síðari ár hefur Árni Pétur verið forstjóri Tíu Ellefu (10-11)/Iceland Verslun (Iceland) og Basko, en seldi hlut sinn 2016. Þess má geta að Basko rak 10-11 verslanirnar sem áður voru reknar í húsnæði Skeljungs en eins og V iðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma var hætt við áætlaða sameiningu Basko og Skeljungs árið 2017. Á síðasta ári keyptu Samkaup hluta hluta af verslunum Tíu Ellefu, en verslanirnar í bensínstöðvunum heita nú Kvikk On The Go.

Árni Pétur hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja, ýmist sem stjórnarmaður eða stjórnarformaður.  Má þar nefna fyrirtæki s.s. Lyfja, Securitas, Skeljungur, Penninn, Borgun og Eldum rétt.  Þá hefur Árni Pétur komið að rekstri símafyrirtækisins Kall í Færeyjum og Bónus í Færeyjum.

Jens Meinhard Rasmussen , stjórnarformaður segir: „Með ráðningu á Árna Pétri sem forstjóra Skeljungs þá erum við að fá inn í fyrirtækið reynslu og þekkingu sem nýtist okkur til að sækja fram á við og móta fyrirtækið til framtíðar.“

Árni Pétur Jónsson , nýr forstjóri segist hlakka til að takast á við spennandi verkefni. „Ég þekki Skeljung vel og veit að þar starfar öflugt og reynslumikið fólk,“ segir árni Pétur. „Starfsemi okkar á Íslandi og í Færeyjum byggir á traustum grunni sem við ætlum að halda áfram að þróa.  Rekstrarumhverfi fyrirtækisins hefur og mun taka breytingum á næstu árum, sem gerir starfið mjög áhugavert.“

Skeljungur er orkufyrirtæki sem selur vörur og þjónustu á Íslandi, í Færeyjum og á Norður-Atlantshafinu. Meginstarfsemi félagsins er innflutningur, birgðahald, sala og dreifing á eldsneyti og eldsneytistengdum vörum. Félagið starfrækir 76 eldsneytisstöðvar og 6 birgðastöðvar á Íslandi og í Færeyjum.

Auk þess selur félagið áburð og og efnavörur á Íslandi og rekur verslanir og þjónustar og selur olíu til húshitunar í Færeyjum og er starfsemin rekin undir merkjunum Skeljungur, Orkan, OrkanX og Magn.

Hér má lesa frekari fréttir um málefni Skeljungs: