*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Erlent 16. september 2019 08:39

Stefna á skráningu þrátt fyrir árás

Aramco hyggst vinna áfram að skráningu í kauphöll þrátt fyrir atburði helgarinnar. Skráningin gæti þó tafist.

Ritstjórn
Myndin sýnir reyk stíga upp frá olíuvinnslustöðinni.
epa

Starfsmenn verðbréfafyrirtækja sem ráðnir voru til að vinna að skráningu sádiarabíska olíurisans Aramco munu halda áfram eftir sama tímaplani og áætlað var þrátt fyrir árás á olíuvinnslustöð um helgina.

Drónaárás var gerð á stærstu olíuvinnslustöð fyrirtækisins á laugardag en áætlað er að árásin hafi takmarkað framleiðslugetu fyrirtækisins um helming. Fyrirtækið áætlar að koma stöðinni í gang á ný innan fárra daga en viðbúið er að nokkra stund muni taka að ná fullum afköstum þar á nýjan leik.

Undanfarin hefur verið unnið að því að skrá fyrirtækið í kauphöllina þar ytra en til stóð að halda kynningarfund með mögulegum fjárfestum í næstu viku. Bjartsýnustu áætlanir gerðu ráð fyrir því að skráning gæti farið fram strax í nóvember.

Bloomberg ræddi við nokkra sem þekkja vel til málsins í skjóli nafnleyndar. Viðmælendur síðunnar sögðu að ólíklegt væri að þau tímaplön myndu halda og sennilegra að skráning myndi tefjast um einhverja mánuði. Það veltur þó allt á því hve langa stund það mun taka að ná fullri framleiðslugetu á nýjan leik.

Olíuverð tók duglegan kipp þegar viðskipti opnuðu á nýjan leik eftir helgina. Í fyrstu viðskiptum hækkaði tunnan um nítján prósent, verðið hækkaði um 11,73 dollara og stóð um skeið í tæpum 72 dollurum á tunnuna, en lækkaði síðan á ný niður í 67,79 dollara.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að hann hygðist heimila sölu á hluta á varabirgðum landsins til að mæta minnkuðu framboði í kjölfar árásarinnar. Áætlað er að ef ekkert yrði gert myndi framboð á heimsvísu lækka um fimm prósent. Venju samkvæmt tilkynnti forsetinn þetta á Twitter-síðu sinni.

Í fyrra var sagt frá því í Viðskiptablaðinu að kauphöll þeirra Sáda myndi margfaldast að stærð með skráningu Aramco. Heildarvirði félaga þar var þá tæpir 50 þúsund milljarðar íslenskra króna en áætlað er að virði Aramco sé um 2.000 milljarðar dollara, andvirði tæplega 200 þúsund milljarða íslenskra króna.

Hér má sjá fleiri fréttir um olíuframleiðslufyrirtæki Sádi Arabíu, Aramco: