*

sunnudagur, 20. september 2020
Innlent 18. mars 2020 09:19

Cintamani selt og opnar á ný

Gjafakort og inneignir í útivistaverslunina verða virtar hjá nýjum eigendum sem keyptu félagið eftir gjaldþrot.

Ritstjórn
Kristinn Már Gunnarsson var aðaleigandi Cintamani sem nú er komið í gjaldþrot, en hann keypti sig inn í félagið 2011.
Haraldur Guðjónsson

Íslandsbanki hefur lokið söluferli á vörumerkinu Cintamani ásamt vörulager og léni félagsins. Kaupandi félagsins er Cinta 2020 ehf. og var kaupsamningur undirritaður í lok síðustu viku.

Verslun Cintamani í Garðabæ verður opnuð á næstu dögum auk þess sem vefverslun félagsins verður opnuð á nýjan leik, en nýr eigandi hyggst jafnframt leyfa nýtingu á gjafabréfum og inneignarnótum hjá félaginu. Félagið Cinta 2020 hefur ekki verið skráð á vef Ríkisskattstjóra, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er Einar Karl Birgisson framkvæmdastjóri Cintamani á bakvið félagið.

Kauptilboð félagsins var samþykkt í lok febrúar, en söluferlið hófst eftir að endurskipulagning fyrrum eigenda fór út um þúfur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í janúarlok tæmdi og lokaði útivistaverslunin og rýmingarsölur settar af stað í kjölfar þess að félagið fór í gjaldþrotaskipti.

Cintamani á um 30 ára sögu í framleiðslu og sölu á útivistarfatnaði, en helstu hluthafar félagsins lögðu því til um 300 milljónir króna í aukið hlutafé fyrir um ári síðan. Kristinn Már Gunnarsson hafði keypt 60% í félaginu árið 2011, en Frumtak slhf. átti félagið á móti honum.

Íslandsbanki hóf söluferli á Cintamani í lok janúar 2020 og var áhugasömum boðið að skila inn tilboðum fram í febrúar. Eins og áður segir hefur nýr eigandi tekið ákvörðun um að þeir viðskiptavinir sem áttu gjafabréf og innleggsnótur hjá félaginu geti nýtt þær hjá nýjum eigendum. Eru þeir aðilar hvattir til að hafa samband í gegnum netfangið gjafabref@cintamani.is.

Hér má lesa frekari fréttir um Cintamani og tengd félög: