Norska fasteignafélagið Fredensborg gerði formlegt yfirtökutilboð í Heimavelli á mánudaginn og hyggst óska eftir því að félagið verði skráð úr Kauphöll Íslands. Tilboðið miðast við gengið 1,5 krónur á hlut. Fredensborg á nú þegar 73,94% í Heimavöllum eftir að hafa gert flestum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð 10. mars þar sem Fredensborg keypti 63,72% í félaginu. Þetta kemur fram í greinargerð stjórnarinnar Heimavalla . Fredensborg kom fyrst inn í hluthafahóp Heimavalla í byrjun ársins.

Frá skráningu Heimavalla á markað í maí 2018 hefur markaðsvirði félagsins verið lægra en bókfært virði eigin fjár félagsins. Gengi bréfa félagsins við skráningu var 1,38 krónur á hlut en ákveðnum hópi bauðst að kaupa bréf á 1,33 krónur á hlut. Bókfært virði eigin fjár félagsins samsvarar 1,8 krónum á hlut. Gengi bréfanna hafði verið undir skráningargenginu frá skráningu þar til Fredensborg keypti hlut í Heimavöllum í byrjun ársins.

Sumarið 2019 gerði félagið AU 3 ehf. öðrum hluthöfum tilboð í félagið gegn því skilyrði að félagið yrði afskráð úr Kauphöllinni. 81% hluthafa félst á afskráningu en Kauphöllin hafnaði því þar sem niðurstaðan þótti ekki nógu afgerandi. Því féll AU 3 frá tilboðinu. Að AU 3 stóð framtakssjóðurinn Alfa, félög í eigu fjárfestanna Finns R. Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar, ásamt Vörðu Capital ehf. og Eignarhaldsfélaginu VGJ ehf.

Í greinargerð stjórnarinnar er bent á að heimilt sé að gjaldfella viss skuldabréf Heimavalla sé verði félagið skráð úr Kauphöllinni án samþykkis kröfuhafa félagsins.

Fredensborg rekur tæplega 100 þúsund íbúðir á Norðurlöndunum og meginlandi Evrópu. Félagið er í eigu Norðmannsins Ivar Erik Tollefsen.

Í greinargerð stjórnar Heimavalla kemur fram að Fredensborg hyggist áfram reka félagið hér á landi. Yfirtakan eigi ekki að hafa áhrif á störf stjórnenda félagsins, starfsmanna þess eða starfsskilyrði þeirra að öðru leyti. Áfram á að reka leigufélag „á Íslandi sem byggir á norrænni fyrirmynd og býður viðskiptavinum sínum íbúðarhúsnæði til langtímaútleigu á hagstæðum kjörum,“ eins og það er orðað í greinargerð stjórnarinnar.

Hér má sjá frekari fréttir um Heimavelli og markaðinn fyrir íbúðaleigufélög: