*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Innlent 16. ágúst 2019 14:29

Segir Ragnar Þór fara með rangt mál

Forstjóri Hraðpeninga og Smálána segir lögfræði- og fjárhagsstuðning VR í baráttunni gegn sér byggja á röngum forsendum.

Ritstjórn
Ondřej Šmakal er forstjóri eCommerce 2020 sem rekur smálánafyrirtækin Hraðpeninga og Smálán.
Aðsend mynd

Forstjóri rekstrarfélags Hraðpeninga og Smálána segir Ragnar Þór Ingólfsson formann VR fara með rangt mál, alla vega í þeirra tilviki, þegar hann segir smálánafyrirtæki enn krefja lántakendur um margfaldan höfuðstól til baka.

Lét Ragnar þór þessi orð falla í Fréttablaðinu í gær í kjölfar þess að stjórn VR samþykkti tillögu hans um að launþegafélagið verði fjárhagslegur bakhjarl Neytendasamtakanna í baráttunni gegn smálánafyrirtækjum, þar á meðal með lögfræðiþjónustu.

„Ég get auðvitað einungis svarað fyrir mitt fyrirtæki en þetta er einfaldlega rangt hjá formanninum,“ segir Ondřej Šmakal forstjóri eCommerce 2020. „Við bjóðum upp á góða vöru fyrir viðskiptavini okkar og leggjum mikið upp úr viðskiptavernd. Síðan ég tók við fyrirtækinu hef ég lagt ríka áherslu á að vanda vel til verka og mér finnst algjört lágmark að menn sem gegna áhrifamikili stöðu, líkt og Ragnar, fari allavega með rétt mál í fjölmiðlum.“

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um að Neytendasamtökin hafa sagt smálánafélögin hafa lengi rukkað ólöglega háa vexti og að lækkun þeirra á vöxtunum rétt undir lágmarkið í júlí sé í raun viðurkenning á fyrri lögbrotum.

„eCommerce 2020 hefur frá 13. maí á þessu ári boðið upp á skammtímalán á 53,75% vöxtum. Það þýðir í raun að neytandi þarf einungis að borga um 719 kr. Í mánaðarlega vexti fyrir 20.000 króna smálán hjá okkur sem er mun minna en áður var,“ segir Ondřej nú.

„Þá hefur eCommerce náð samkomulagi við Creditinfo um að lán sem gefin voru út fyrir 13. maí sl. verði endurskráð með einungis upprunalegu lánsupphæðinni, það er höfuðstólnum. Creditinfo skráir einungis óumdeildar kröfur og því er þetta ákveðin traustyfirlýsing um að sú vara sem við bjóðum sé lögmæt, sem hún vafalaust er.“

Hér má lesa fleiri fréttir um smálánafyrirtæki: