Í gær klukkan 15:00 lauk almennu hlutabréfaútboði í Arion banka, en fagfjárfestar hafa enn tíma til hádegis í dag til að senda inn tilboð. Samkvæmt tilkynningu bankans frá því í nótt eru væntingar umsjónaraðila útboðsins um að verð í útboðinu verði 75,00 krónur á hvern hlut.

Áskriftir hafa borist á þessu verði margfalt umfram þá hluti sem í boði eru í grunnstærð útboðsins segir í tilkynningunni. Seljandi hefur hvorki samþykkt framkomin tilboð né tekið ákvörðun um endanlegt útboðsverð auk þess sem áskriftum kann að vera breytt. Skilmálar útboðsins eru nánar tilgreindir í lýsingunni.

Eins og V iðskiptablaðið sagði frá í gær þrengdi bankinn verðbilið þá, en upphaflega hafði það verið miðað við frá 68 krónum upp í 79 krónur. Þá kom jafnframt fram að sjóður á vegum Attestor capital væri að íhuga að selja 3% eignarhlut í bankanum.

Skilyrt viðskipti hefjast með bréfin í Kauphöllinni á morgun, þangað til á mánudag þegar í ljós kemur hvort dreifing bréfanna sé næg eftir útboðið nú.

Í gær tilkynnti bankinn einnig að þegar hafi borist áskriftir fyrir þeim hlutum sem eru í boði, auk þess sem það dugir fyrir stækkunarheimildina í útboðinu, sem og að verðbil útboðsins hefði verið þrengt í 73-75 krónur á hlut.

Bréfin sem eru til sölu nema frá 22,63% upp í 36,20% af heildarhlutafé í félaginu. Til viðbótar íhugaði sjóður á vegum Attestor að selja 3% hlut. Stækkunarheimildin miðaðist við að eftirspurn færi yfir 35,4 milljarða króna.

Leiðarar, pistlar og skoðanadálkar um Arion banka:

Fleiri fréttir um málefni Arion banka: