*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 23. október 2019 18:57

Brim fjárfesti fyrir 3 milljarða

Semja við Marel um kaup á þremur hátæknivinnslulínum fyrir fiskvinnslu Brims á Granda.

Ritstjórn
Nýju fisvinnslulínurnar verða settar upp í húsnæði Brim, áður HB Grandi, á Norðurgarði á Granda í Reykjavík, en meðan á uppsetningunni stendur verður vinnslan flutt í Fiskvinnslu Kamba í Hafnarfirði sem Brim hefur nýlega fest kaup á.
Haraldur Guðjónsson

Fjárfesting Brims á þremur nýjum hátæknivinnslulínum nemur um þremur milljörðum króna en loka þarf fiskvinnslu fyrirtækisins á Norðurgarði á Granda í Reykjavík um nokkra mánuði á næsta ári vegna uppsetningarinnar að því er Morgunblaðið greinir frá. Vinnslubúnaðurinn er keyptur af Marel.

Á mánudaginn bárust fregnir af því að Brim hefði gert samning um kaup á Fiskvinnslunni Kambi hf. og útgerðarfélaginu Grábrók ehf. Kambur rekur útgerð og fiskvinnslu í Hafnarfirði og Grábrók gerir einnig út frá Hafnarfirði. Á meðan framkvæmdir standa yfir við Norðurgarð mun vinnsla Brims færast til Hafnarfjarðar.

„Kambur er nýbúinn að kaupa glænýja tæknivædda vinnslulínu frá Völku sem er með nýjustu vatnsskurðarvélinni og er að ná mjög góðum árangri,“ segir Guðmundur í samtali við Morgunblaðið. „Við erum búin að taka ákvörðun um að við ætlum að standast samkeppni við erlendar fiskvinnslur sem hafa verið að kaupa mikið magn á fiskmörkuðum. Kambur er með eina línu. Við munum setja þrjár nýjar línur upp úti á Granda. Þetta verður eitt fullkomnasta fiskvinnsluhús í heimi.“

Í kjölfar uppsetningarinnar á búnaðinum sem Fiskifréttir greinir ítarlega frá, hefur félagið til lengri tíma áætlanir um að nota fiskvinnslu Kambs í ákveðna sérvinnslu. Guðmundur segir einu leiðina til að auka samkeppnishæfni íslenskrar fiskvinnslu gegn evrópskri sem búi við allt annað rekstrarumhverfi sé með mikilli tækni. Hann býst við að starfsfólki muni fækka en hafa betra starfsöryggi í framhaldinu.

Hér má lesa helstu fréttir um málefni HB Granda og Brim síðan um það leiti sem Guðmundur keypti í félaginu: