*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 11. desember 2019 15:16

Verðið undir markaðsvirði

Verð það sem Brim kemur til með að greiða fyrir Fiskvinnsluna Kamb og Grábrók er lægra en markaðsvirði þeirra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Verð það sem Brim kemur til með að greiða fyrir Fiskvinnsluna Kamb og Grábrók er lægra en markaðsvirði þeirra. Gildir þá einu hvort litið er til sjóðstreymis eða upplausnarverðs. Þetta kemur fram í niðurstöðum greiningar sem IFS vann fyrir Brim.

Sagt var frá kaupunum um miðjan októbermánuð en þau voru samþykkt í nóvember af stjórn Brim. Hluthafafundur verður hjá Brim á morgun þar sem tillaga um staðfestingu á kaupunum verður lögð fram til samþykkis eða synjunar. Samanlagt kaupverð fyrir útgerðirnar tvær er ríflega þrír milljarðar króna.

Í greiningu IFS kemur fram að aflaheimildir fyrirtækjanna tveggja falli vel að rekstri Brim og að fiskvinnsla Grábrókar í Hafnarfirði sé nýuppgerð og búin góðum tækjum. Áætlaður ávinningur af kaupunum er um 6-7% af kaupverði og þau metin hagfelld fyrir Brim.

Með kaupunum ætla stjórnendur Brim að nýting landvinnslu muni aukast og framlegðarbati fáist þar sem jaðarkostnaður verði óbreyttur. Þá ætla stjórnendur Brims að sala húss í Hafnarfirði eða önnur nýting þeirra sé jafngild og skili félaginu álíka verðmætum.

Hjálmar Þór Kristjánsson, bróðir Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims, átti allt hlutafé í Grábrók og 39% hlut í Kambi. Í nóvember seldi Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR), sem er að langstærstum hluta í eigu Guðmundar, bréf í Brim fyrir 1,8 milljarða til KG Fiskverslunar. Það félag er síðan í eigu Hjálmars. Nýverið keypti síðan ÚR þriðjungshlut í eignarhaldsfélaginu Kristjáni Guðmundssyni ehf., af KG Fiskverslun, en félagið átti 37% í ÚR.

Hér má lesa helstu fréttir um málefni HB Granda og Brim síðan um það leiti sem Guðmundur keypti í félaginu:

Stikkorð: Brim